Olla og Kalli

Hjólkoppur

föstudagur, apríl 10, 2009

Flatey á Breiðafirði

Flatey á Breiðafirði
Þar sem Þrándur mjóbeinn nam fyrstur land.
Föstudaginn 6. júlí 1984 fór ég ein í tjaldferð út í Flatey heimanað frá heimili mínu í Kópavogi. Mig hafði lengi langað þangað vegna þess að bræður mínir, Pétur og Hugi
höfðu verið þar í vinnumennsku á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina og ég hafði heyrt margar sögur þaðan, engan fékk ég samt með mér úr fjölskyldunni.
Gott var veður og Karl maðurinn minn og Pétur sonur minn óku mér niður á Umferðamiðstöð. Rútan fór kl. 9.00 um morguninn til Stykkishólms. Ferðin gekk vel, ég sat við hliðina á danskri stúlku, talmeinafr fyrir börn, hún var að fara á hestamannamót á Kaldármelum. Það var stoppað í Borgarnesi, þar keypti ég mér vinnuvettlinga, um kl.13.30 var komið í Stykkishólm en áður hafði verið stoppað á Vegamótum. Það var ekið beint niður á bryggju í Stykkishólmi þar sem ferjan Baldur lá við landfestar. Þar byrjaði bílstjórinn að taka dótið út úr rútunni en skildi mitt eftir af því að ég hafði ekki sagt honum að ég ætlaði með “Baldri”, aðeins í Stykkishólm. Ég fór svo til hans og bað um dótið.
Í ferjunni hitti ég Þóru Elfu Björnsson og Gísla manninn hennar en þau voru að fara yfir Breiðafjörð með bíl og ætluðu að aka til Bíldudals og heimsækja dóttur sína Helgu sem býr þar ásamt syni sínum Hirti og svo er sonur þeirra Jósep hjá Helgu í sumar. áður var ég búin að hitta í rútunni á leið í Stykkishólm, konu að nafni Valgerði Pétursdóttur er vann hjá Orkustofnun er ég var hjá Rarik og var hún með Sjöfn vinkonu sinni ásamt tveim 8 ára drengjum, syni sínum Sigurði Jósúasyni og Jóni Þór systursyni sínum.Þær voru á leiðinni í Ráðagerði, sumarhús Stjórnarráðsins í Flatey.
Ferjan Baldur lagði af stað upp úr kl.14.00 og gekk ferðin vel. Á Bryggjunni í Flatey beið hellingur af fólki eftir okkur. Þar var mér vísað á konu er Ólína heitir (frá Hvallátrum), hún vísaði mér á tjaldstæði rétt upp frá bryggjunni hjá fiskitrönunum og bauð mér að taka vatn í plastbrúsa sem ég hafði meðferðis, hjá sér. Hún hjálpaði mér með dótið, hélt á svefnpokanum og tjaldhimninum. Ég tjaldaði svo og gat með naumindum sett tjaldhimininn yfir og auðvitað ruglaðist ég í áttunum. Kalli var búinn að segja, ekki snúa tjalddyrunum í norður. En það var einmitt það sem ég gerði. Síðan fékk ég mér að borða og lagðist út af, þá var ég orðin dauðþreytt.

7. júlí laugardagur. Vaknaði eftir stormasama nótt. Ég var alltaf að athuga tjaldið um nóttina, hélt að það myndi hrynja yfir mig, þá og þegar. Fór á kamarinn og fékk mér að borða í tjaldinu, lá svo í hálfgerðu móki, var með höfuðverk og máttleysi. Reyndi samt að lesa Laxdælu, sem ég hafði með mér. Það var þurrt veður og sól, um +14°C.
“Guðmundur Scheving kom til Flateyjar 1814 eftir að hafa farið til Kbh. og keypt helming af Flateyjarversluninniog gerðist kaupmaður eftir að hafa misst sýslumannsembættið í Barðastrandasýslu er hann sór Jörundi Hundadagakonungi hollustu sína. Guðmundur lét hlaða mikinn grjótgarð 280 feta langan og loka þannig
Grýlugarði svo skipum hans var óhætt fyrir sjó og vindi er Silfurgarður nefndist
vegna þess að Guðmundur greiddin verklaunin í skíra silfri.Guðmundur var líka með stórbú á ættaróðali sínu Haga á Barðaströnd og flutti meðal annars inn spænska hrúta og ær til kynbóta”.

8. júlí sunnudagur. Vaknaði kl. 9.00 eftir stormasama nótt, svaf lítið, var alltaf að athuga tjaldhælana. Fór útí þorp, hitti Pál Magnússon 14. ára dreng sem er kúasmali hér í sumar en hann er sonur Magnúsar Bjarnfreðssonar útvarps,sjónvarps og blaðamanns og skilaði ég kveðju til hans.Fór og tók mynd af Strýtu, ættaróðali er
Gestur Gestsson skólastjóri átti faðir Heiðar teiknikennara og kunningja konu minnar. Fékk mér kaffi, pönnuköku, kleinu, jólaköku og tertu fyrir kr.125. í kaffistofunni hér. Fór í símaklefann s, talaði við Pétur son minn,Karl var á fundi, hringdi í Heiði og sagði henni að ég væri búin að taka mynd af ættarhúsinu þeirra sem ég ætlaði að gefa henni. Gekk út á bryggju, hitti oddvitann Hafstein að nafni og annan mann, sem er hér á sumrin til afleysinga. og spjallaði við þá um heima og geima.
Fór heim í tjald, þá var kl. 12.30. Tók niður tjaldið og færði það á betri stað og lét það snúa í austur- vestur eins og Kalli sagði mér að gera en pakkaði tjaldhimninum saman. Fór í kirkuna kl. 15.00, þar messaði séra Gísli Kolbeins og síðan var gifting, þau Sigurjón Magnús Valdimarsson,ritstjóri, gamall skólabróðir minn og Dóra Jóna Gissuradóttir gengu í það heilaga með pompi og pragt.
Að lokinni giftingu gekk ég með Björgu Þórðardóttur sem er með kaffistofuna í Flatey og fékk mér molasopa hjá henni, hann kostaði kr.25. Hringdi svo í Karl. Síðan fór ég heim í tjaldið og fékk mér að borða og fór svo í göngutúr í +14°C og glampandi sól. Þar sá ég elstu og minnstu bókhlöðu landsins sem stofnuð var 1862 af hjóninum Ólafi Sívertsen og Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur . Fór í Ráðagerði í heimsókn til Valgerðar Mér var boðið upp á kaffi og rauðvín, við röbbuðum svo saman til kl. 22.00, þá fór ég heim í tjald.

9. júlí mánudagur. Vaknaði kl. 9.00 í glampandi sól og blíðu. Það er yndislegt veður, ég fæ mér að drekka, geng um, les Laxdælu og rölti svo niður á bryggju um kl.10.30, Baldur kemur og flytur fólk fram og til baka yfir Breiðafjörðinn með viðkomu í Flatey. Ég hitti Eddu Úlfsdóttur og Hallbjörn manninn hennar (en Edda vann með mér í Fiskiðjuverinu 1951 Þau eiga Bentshús hér sem smíðað var árið 1871. Hulda systir mín hafði verið í vist hjá foreldrum hennar á Ljósafossi.við Sogið Þau buðu mér heim og í kaffi og við drukkum úti eftir að vera búin að skoða efri hæðina í húsinu, en þau eiga hana. Þau eru að fara með Baldri seinni partinn í dag, síðan fór ég heim og í leiðinni hitti ég Sjöfn og lofaði henni að horfa í kíki sem ég var með.Er heim var komið lagðist ég úti fyrir tjaldinu, las Laxdælu og lét sólina skína á mig..Kl 15.00-16.00 fer ég niður á bryggju að kveðja fólkið sem er að fara með Baldri, þar á meðal Sjöfn, síðan er ég samferða Valgerði og strákunum hennar út í þorp, ég býð strákunum coca cola og súkkulaði en Valgerði upp á molakaffi við förum í skoðunar ferð um þorpið og göngum svo heim og ég held áfram að lesa Laxdælu og fæ mér svo mikið að borða að ég er að springa núna kl.22.00 og enn er glampandi sól og +14°C

10. júlí þriðjudagur. Vaknaði kl. 3.00 að morgni í sól og blíðu, fór að lesa bókina “Síðasta skip suður” eftir Jökul Jakobsson og Baltasar. Lauk bókinni í morgunsárið, svaf síðan til kl. 10.00 f.h. Fór niður á bryggju en gekk svo með sjónum inn í Grýluvog og að Silfurgarði og inn að Vogi, þar hitti ég Björgu Þórðardóttur og keypti kaffi hjá henni og fékk tvær kleinur í kaupbæti Síðan gekk ég fjöruna til baka frá kirkjunni eftir að vera búin að leita að Blágrýtissteininum merkilega en það er klappaður í hann bolli sem munkarnir heltu í vígðu vatni og signdu sig upp úr því áður en þeir gengu til vinnu sinnar. Þar er ryðgað bárujárnshús sem heitir Klausturhólar, þar undir stóð Klaustrið. Í þetta skipti lenti ég í miklu fuglageri.. Ég gekk svo heim og kom í tjaldstað og fékk mér í svanginn. Fór niður á bryggju um kl.16.00 og fylgdist með Baldri koma og fara, gekk með Valgerði heim til hennar, hún bauð mér kaffi og við röbbuðum saman. Strákarnir hömuðust í einhverjum leik, það er meira fjörið í þessum börnum. Allt í einu sáum við Valgerður út um eldhúsgluggann að Helicopter kom og lét mann út hjá kirkjunni, hann gekk svo fram hjá Ráðagerði og sáum við að þetta var ungur maður, grannur og dökkhærður. Ég fór svo heim í tjald, þá hitti ég hann. Hann var búinn að tjalda rétt hjá mér. Hann heitir Philipp og er þýskur leiklistarnemi. Ég gekk með honum um Flatey og fékk Valgerði með okkur.
Við Philipp gengum svo heim í tjaldstæðið, þá var farið að rigna svo ég fór inní tjald um kl.19.00, fór að lesa og svo að sofa.

11. júlí miðvikudagur. Vaknaði um kl.9.00 eftir rigningarsama nótt, Fékk mér að borða. Fór niður á bryggju, hitti þar Eðvarð og Valdimar lögreglumenn úr Kópavogi og eru þeir hér að veiða fisk, ætluðu reyndar að veiða lúðu í dag. Valdimar er bróðir Ólínu, konu Hafsteins oddvita hér í Flatey og halda þeir til í Læknishúsinu. Við Philipp gengum saman um eyjuna, fundum “Blágrýtissteininn”og ég bauð honum í kaffi í Kaffistofunni.. Gengum fram hjá Valgerði kl.12.30, hún sagði okkur að hún væri að fara heim í dag og bauð okkur upp á rauðvín. Hún var að vandræðast yfir því hvað henni gengi illa að brenna ruslið, hún þyrði það varla, svo ég sagði henni að biðja Philipp, hann tók strax vel í það. Hún bað okkur þá að koma kl.14.30 að brenna ruslið. Ég hitti bresk hjón er voru með Baldri og komu frá Írlandi , þau stoppuðu í fjórar klukkust. hér, ég gekk með þeim og sýndi þeim kirkjuna m.a., þar eru myndir eftir Baltasar og altaristafla eftir Anker Lund er hann málaði árið 1885. Fór niðu á bryggju, hjálpaði Valgerði með dótið, hún keyrði það í hjólbörum . Gekk austur í þorp með fólkinu, heimsótti Sigríði Bogadóttur, hún býr í Vertshúsinu ásamt systursyni sínum, hún gaf mér kaffi. Þar var kona hjá henni í heimsókn, Sigurbjörg að nafni.. Stoppaði stutt. Fór heim í tjald, hvíldi mig. Það er rigning af og til og allt blautt úti, +12°C . Ég ætla ekki að fara út úr tjaldinu í nótt nema ef nauðsyn krefur.
12.júlí fimmtudagur. “Flateyjarbók er kennd við eyna þar sem hún var varðveitt um hríð. Jón Hákonarson bóndi í Víðidalstungu i Húnavatnssýslu lét rita hana um 1400 og er þetta merkilegasta skinnbók sem er varðveitt. Það þurfti um 113 kálfskinn og var hún búin að vera í sömu ætt um 320 ár. Jón bónd Finnsson eigandi hennar bjó stórbúi í Flatey. Um krossmessu 1647 kemur Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbyskup í visitasíu til Flateyjar þar sem hann messar og er honum haldin vegleg veisla af Jóni bónda Finnssyni. Jón lék við hvern sinn fingur en Brynjólfur var nokkuð ókyrr oga út á þekju eftir því sem líða fór á kvöldið. Þar kom að meistari Brynjólfur bað Jón bónda að selja sér Flateyjarbók og bauð honum silfur og gull og sagði að Friðrik konungur III hefði skrifað sér og beðið sig að útvega sér skinnbækur frá Íslandi. Jón bóndi varð fár við og svaraði engu og sló þögn á mannskapinn en Jón bóndi gerði ekki annað en fylla á ný í staupin og taka upp léttara hjal. Að lokum lét Brynjólfur ljúka upp kistu sinn og tók þar upp “klaret”, kvaðst Brynjólfur þær dýru veigar frá kaupmönnum af Eyrarbakka. Jón bóndi hýrnaði nú heldur og drukku þeir vel sem eftir lifði nætur. En er morgnaði fylgdi Jón bóndi byskupi til skips, en sveinar hans studdu hann. Jón brá sér í stofu snöggvast áður en hann fór. Í vörinni föðmuðust þeir og Brynjólfur klöngraðist um borð. Þá rétti Jón Finnsson fram ættargrip sinn og bað biskup að þiggja að gjöf. Biskup gaf svo Friðriki konungi III bókina árið 1656”.
“Það var 250 árum síðar að Bandaríkjastjórn bað Dani um að Flateyjarbók mætti vera á heimssýningunni miklu í Chicago vegna þess að hvergi nema á þeirri bók var skráð aðalfrásagan af fundi og könnun Vínlands á skinni og buðust til að senda beitiskip til Kbh eftir bókinni og tvær korvettur mundu fylgja, síðan flytja hana í sérstakri járnbrautarlest frá New York til Chicago, vopnaður flokkur hermanna skyldi standa vörð um bókina dag og nótt en Danir töldu sig ekki geta orðið við bóninni”.
Í dag er ég að leggja af stað heim. Fer með “Baldri”fyrstu ferð dagsins, gleymdi vatnsbrúsanum í ferjunni svo ég á líkast til eftir að koma aftur á þessar slóðir. Fór með rútu til Rvk. Þar beið Karl eftir mér á Umferðamiðstöðinni sem betur fer enda ég orðin þreytt eftir volkið. .
p.s. varðandi heimildir, stuðst við “Síðasta skip suður”,bók Jökuls Jakobssonar
og “Landið þitt Ísland 1. bindi. e. Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson.

1 Comments:

At þriðjudagur, febrúar 26, 2013, Anonymous Nafnlaus said...

My ρartneг and Ι stumbled over here different web page аnd thought Ι may aѕ well check things out.

I like whаt I sеe so i am just fοllowing you.
Loоk fоrwагd to lookіng at your ωeb pаgе rеρeаtedlу.


my ωеb page ... buy SEOPressor V5

 

Skrifa ummæli

<< Home