Sönglög Aðalheiðar Kristinsdóttur
Sönglög Aðalheiðar Kristinsdóttur,
textahöfundar auk hennar: Ásgrímur Kristinsson og Kristinn Bjarnason
Hljóðritað haustið 2003. Raddsetning: Bjarni Valtýr Guðjónsson
Bjarni Valtýr Guðjónsson spilar fimm síðustu lögin frá 10 - 14
Ólöf P. Hraunfjörð tók lögin saman.
1 Heim í dalinn Sigurður Sigurðsson syngur, texti:A.Kr
Ég lít í anda lundinn vors og blóma
ég leita ennþá heim í dalinn minn.
Ár og læki, foss og flúðir óma
ég finn þar rætist bernskudraumurinn.
Sé túnin græn um byggðina og ból
baðminn fjalla rísa móti sól.
Byrkilyngið brosir þar í mó
ber að vitum ilm sem gefur ró.
Ég heyri niðinn lækjar létt við eyra
og ljúfa óminn himingeimnum frá.
Ef vel ég leita finn ég kannski fleira
sem færir gleði í minninganna þrá.
2 Endurskin Harpa Hallgrímsdóttir syngur, texti:A.Kr
Þar sem endurskin æskunnar lýsir
um óralangt draumanna svið
á ég perlur og purpura í sjóði
prýða kringum mig dásemd og frið
laut í móa og lækurinn tæri
laugar sál mína fróandi mið
eyrarrósin og angandi lyngið
ótal minjar að una sér við.
3 Lítill óður Hallgrímur V.Árnason syngur texti:A.Kr
Einn lítinn óð um lítið ævintýr
er lifir enn við dýpsta hjartans vé.
Og rósin fagra enn við barminn býr
sem breiddi sig á veginn er ég sté.
Það bjarmar enn um æsku minnar eld
endurspeglar það sem liðið er.
En vinir góðir, veitið mér í kveld
varmann sem að lífið tók frá mér.
4 Er sólin á vordegi vermdi, Hallgrímur V. Árnason syngur, texti:AKr.
Er sólin á vordegi vermdi
og vangann strauk blærinn svo þýtt
frá unaðar æskunnar minning
um árdaga sér það svo vítt.
Ef aldurinn æskuna geymir
sem allt var þá fagurt og bjart,
við breiðum á broddana lífssins
blómanna fegursta skart.
5 Manstu vina, Ingimar Halldórsson syngur, texti:Kr.Bj
Manstu vina er sól var að síga
út við sjónhring og kvöldið var blítt,
er við settumst í laufgræna lautu
rétt við lækinn er ómaði þýtt.
Og við tengdum þar hendur og hjörtu
meðan húmið á jörðina seig
og ég man ennþá brosin þín björtu,
hvernig barmurinn lyftist og hneig.
6 Brekkan , Ingimar Halldórsson syngur, texti:A.Kr.
Ó, hvað ég sakna þín brekkan mín blá
af berjum ég sat og las
hugur minn fylltist heitri þrá
er heyrði ég hið kliðandi mas
lækjarins tæra er leið það um eyrar
á leið til sævaróss
blómin mín fögru, sem glitruðu um grundu
í gulli sólarljóss.
7 Báran, Hreggviður Hreggviðsson syngur, texti: A.Kr.
Er kvöldið blíða kyssti nætur húm
og kveikti himins töfra roða glóð
og báran gjálfrar blítt við fjörustein.
Ég beið þín löngum vinur minn og ein
á hvítum hesti komst sem farandsveinn
kraupst að fótum mér í ljúfri þrá
við bundum heit við bjartan kærleikseld
við bláan sæinn geymum þetta kveld
og nóttin dottar drauminn okkar við
er dásemg lífsins fyllti unaðsþrá
en báran gjálfrar enn við unnar helin
óskadrauminn minn sem geymir ein.
8 Þar sem liggja mín ljúfustu spor, Hreggviður Hreggviðsson sygur, texti A.Kr.
Þar sem liggja mín ljúfustu spor
langt inn í grösugum dal
lifði ég æskunnar ár, undi í fjallanna sal.
Við lindina litlu var sest,
ljómaði gleðin á brá.
Fann ég hvar vorið var best,
vakti mér unað og þrá.
Hin ljómandi litríka mynd
laugar nú sál mína frið.
Hin blátæra, blikandi lind
ber enn þá straumfallins nið.
9 Æskuómar, Þorbjörn Hlynur Árnason syngur,texti:A.Kr.
Er sólin roðar himinhvolf um kvöld
kysi ég æ að líta dalinn minn,
söngfuglinn er sest þá niður í ró,
og svo er kyrrð um lágnættið um sinn
og næturhúmið þegar færist frá
fjöllin lít ég aftur töfra blá.
Og huldur dalsins dreymnar rísa á fætur
en dulræn elfan strymir fram með nið
þar eru bundnar æsku minnar rætur
átthagann djúpa hljóða frið.
10 Á léttum vængjum, texti: Ásgr. Kr.
Frá æsku hef ég unnað heitast þér
en aðeins fundið blæ af návist þinni.
Á léttum vængjum fórstu framhjá mér
með fyrirheit um einhver meiri kynni.
Ó, ljóðadís, það löngum hef ég þráð.
Þú léðir snauðum bónda samfylgd þína,
svo gæti ég nokkrum gripum aðeins náð
sem gæfu skæran tón í hörpu mín.
11 Manstu ekki ennþá, texti: Ásgr.Kr.
Manstu ekki ennþá haustsins kyrru kvöld,
kýrnar með troðin júgur lötra að stöðli.
Rökkurmóða leggst um lyng og ása,
laufvindar mjúkir koma austan heiði.
Ilmríkir, ferskir mundu að morgni blása,
berandi í fangi angan ótal grasa
innan af heiði niður í dalinn þinn.
Og blöð af víði og birki úr skógarlundum,
blómadýrð öræfanna, vinur minn.
12 Nú undrast ég það, texti: A.Kr.
Nú undrat ég það, er ég lít yfir ævina alla
svo oft sem ég gekk í bratta, að ég skyldi ekki falla.
En nú þar ei nema litla steinvölu á vegi.
Hún veltir mér síðast hljóðlaust á enda degi.
13 Víkingablóð, texti: A.Kr.
Víkingablóð rennur æðum oss í
útlaginn þráir sitt feðranna land.
Frá upphafi lifir í tengslum og trú,
að traust sé vort ættjarðarband.
Þeir vildu ei lifa við kúgun né konungabann,
kusu því landið sem Ingólfur vann.
Hann byggði svo bæ sinn í Reykjavík.
Þar er borgin sem engri er lík.
14 Bæn, texti: A.Kr.
Ég kem til þín kvíðin á sál
kem til þín biðjandi um náð.
Ég heyri þitt heilaga orð,
hlýt þinni blessun og náð
Aðalheiður Kristinsdóttir skáld og bóndakona er fædd 18.maí 1916 að Gafli í Víðidal, faðir hennar var Kristinn Bjarnason frá Ási, sonur Bjarna Jónssonar oddvita á Akranesi og konu hans Sigríðar Hjálmarsdóttur, Hjálmarssonar(Bólu-Hjálmars). Móðir Aðalheiðar var Kristín Sölvadóttir frá Réttarholtskoti á Skagaströnd en hún fékk heilahimnubólgu er Aðaheiður var 6 mánaða var hún þá tekin í fóstur að Melrakkadal til Kristmundar Meldal og Hólmfríðar Jóhannsdóttur.
Aðalheiður flutti vestur á land um tvítugt og bjó yfir 40 ára með Sigurbergi Frímannssyni m.a. í Fíflholtum og Skíðsholtum á Mýrum. Þau eignuðust 3 börn, Sigurð, Ásgeir og Stellu. Nú hefur hún búið í 30 ár í Malmö með Stellu dóttur sinni.